Continue

Bilablogg.is – Jeep Avenger reynsluakstur

03 May 2023

Blaðamenn víðsvegar frá Evrópu reynsluóku nýlega, fyrsta 100% rafknúna bílnum frá Jeep. Reynsluaksturinn á Jeep Avenger var á Spáni nánar tiltekið í Malaga og nágrenni og voru íslenskir blaðamenn þar á meðal. Hér er að finna reynsluakstur bilablogg.is bæði í rituðu og á myndmáli.


Tengill á grein: Bílablogg.is – Höfundur: Pétur R. Pétursson – Ljósmyndir: Pétur R. Pétursson

Einu áhyggjurnar sem ég hef í augnablikinu varðandi þá ákvörðun um að kaupa mér eins og einn nýjan Jeep Avenger eru hvaða lit ég ætti að velja. Það er ekkert annað í veginum í rauninni.

Hér er kominn splunkunýr rafbíll frá Jeep sem boðinn er 100% rafdrifinn og er fyrsti hreini rafbíllinn sem fyrirtækið setur á markað. Jeep Avenger var valinn bíll ársins í Evrópu fyrir árið 2023 og maður skilur valið fullkomlega þegar maður hefur ekið þessum snjalla bíl um þjóðvegi Spánar í eins og eina dagstund.

En hvað er svona æðislegt?

Jú, það eru öll smáatriðin, það er útlit, hönnun, innanrými og akstursupplifunin. Fyrir það fyrsta er eins og maður sé að aka mun stærri bíl en raun ber vitni. Þú situr afskaplega vel í bílnum, sest beint inn í bílinn en ekki ofan í hann.

Það er fínt fótapláss frammí en minna afturí. Þar er hins vegar ágætt höfuðpláss fyrir nokkuð hávaxna einstaklinga.

Hægt er að fá bílinn í ótal mismunandi litasamsetningum og með litlum og skemmtilegum fídusum eins og húddmerkingu getur þú gert bílinn meira að þínum.

Farangursrýmið rúmar 380 lítra og er stækkanlegt í um 1000 lítra. Farangursgólf er slétt við hlerakarminn þannig að hleðsla er pís of keik. Smáatriðin koma víðar við sögu. Til dæmis hefur Jeep sett grafík hér og þar sem minnir á hina 80 ára gömlu sögu jeppans sem hófst með herjeppanum vel þekkta árið 1941.

Þegar sest er undir stýri tekur á móti manni gott útsýni í gegnum framrúðu þar sem hugsað hefur verið fyrir því að lágmarka blinda punkta þegar ökumaður er að aka í krefjandi aðstæðum.

Hurðir opnast vel og maður sest beint inn í bílinn en ekki ofan í hann.

Vel búnar útfærslur

Ísband ætlar að bjóða þessa bíla í þremur útfærslum, Longitude, Altitude og Summit. Búnaðarmunurinn felst svolítið í notagildi bílsins. Ef þú ert útivistartýpa og vilt nota bílinn í grófari tilgangi, til að mynda í veiðina eða bústaðinn er fínt að velja Longitude týpuna.

Ef þú vilt sameina borgarnotkun þar sem þú notar bílinn til allra daglegra nota ertu með meiri lúxus og þægindi í bæði Altitude og Summit bílnum.

Þrátt fyrir það er grunngerðin með öllu því helsta sem við ætlumst til í svona bíl eins og Selec Terrain með sex drifstillingum, Eco, Normal, Sport, Sand, Mud og Snow, lykillausri ræsingu, brekkuaðstoð, árekstrarvara, akreinavara og hraðastilli.

Skemmtileg og hagnýt innanrýmishönnun auk þess sem efnisval er allt hið besta. Þó erum við að tala um talsvert af hörðu plasti í mælaborði. Reyndar kallar það fram karakter bílsins enda mikill Jeep svipur á þessum bíl.

Góður akstursbíll

Sá bíll sem við höfðum til prófunar á Spáni var af Summit gerð og bókstaflega með öllu sem í boði er fyrir þennan skemmtilega bíl. Í honum var ökumannsaðstoð sem hjálpar við að halda bílnum innan akreinar, skynvæddur hraðastillir, umferðarskiltalesari, þráðlaus hleðsla og hellingur af geymslurými í innréttingu.

Já, þetta með geymslurýmin er eftirminnilegt að því leytinu að hvar sem þú lítur eða hvílir hönd er hægt að koma fyrir einhverju sem má geyma.

Jeep Avenger samsvarar sér ótrúlega vel. Takið eftir hvernig svartir listarnir ramma bílinn inn og felgurnar gera líka mikið.

Fyrst og fremst fer þessi bíll verulega vel með mann. Það sem einkennir gripinn sérstaklega er hversu hljóðlátur hann er og lítið veghljóð heyrist inn í akstri.

Annað og hitt er að akstursupplifunin er einkennandi fyrir fyrrgreind atriði því hinn hljóðláti akstur er algjörlega átakalaus fyrir nýjan og glerfínan Jeep Avenger.

Kraftmikill og hljóðlátur

Avenger er virkilega snarpur í Sport stillingu og maður finnur talsverðan mun þegar maður ekur honum í þeim ham. Hann er að eyða þetta 17 kwst. á hverja 100 km. skv. upplýsingum frá framleiðanda en við fórum með mikið meira enda spöruðum við ekki orkuna.

Hægt er að hlaða Avenger í heimahleðslu með 11 kwst. hleðslustöð sem þýðir um 24 mínútur frá 20-80% hleðslu.

Hægt er að ná allt að 100 kwst. á klst. í hraðhleðslu.

Þessi bíll var búinn rafdrifinni opnun á afturhlera og aðeins þurfti eitt gott dansspor til að opna með fætinum.

Öflug 54 kwst. rafhlaða bílsins kemur bílnum allt að 400 km. skv. WLTP staðlinum en Jeep segir að hann geti komist allt að 550 km. við bestu aðstæður í hefðbundnum borgarakstri.

Þyngd bílsins er um 1500 kg. og þyngdarjöfnun nánast jöfn. Avenger er framdrifinn og hann er viljugri en mann grunar áður en maður leggur af stað.

Auðvitað fer drægni eftir fjölmörgum þáttum eins og hitastigi, vindhraða og aksturslagi. Það eru hins vegar dæmi um rafbíla hér á landi sem hafa farið umfram þá vegalengd sem WLTP staðallinn gefur upp.

Það eru fyrst og fremst bílar sem samsvara sér vel í þyngd og stærð en þar kemur hinn nýi Avenger mjög sterkur inn – ekki nema um 1.500 kg.

Fyrir hverja?

Jeep Avenger er fyrst og fremst fjölskyldubíll með fjölbreytt notagildi. Með 20 cm. undir lægst punkt er hægt að bjóða bílnum leiðir sem liggja ekki endilega um beinar og breiðar brautir.

Hann er flottur og sportlegur og þægilegur í umgengni.

Til dæmis geturðu hreyft fótinn eins og þú sért í línudansi og þá opnast farangursrýmið.

Þessi svarti Jeep Avenger er með bláum þemalit í felgum sem á að undirstrika orkugjafa bílsins.

Að innan er allt efnisval hið fínasta. Við erum reyndar að tala um hart plast í mælaborði og í hurðaspjöldum og er það án efa gert með notagildi til útvistar í huga.

Að öðru leyti er hugað að smáatriðum sem koma skemmtilega á óvart, bæði út frá útliti og notagildi.

Jeep efndi til kynningar á bílnum á hóteli í Fuengirola á Costa del Sol á Spáni. Þar var þessi fallegi litur sýndur í anddyrinu.

Þessi bíll er tilvalinn fyrir hjón með tvö börn sem nota bílinn mikið, í skrepp og skutl og síðan til og frá vinnu í borg eða bæ. Hann hentar hjónum sem vilja þægilegan bíl hvað umgengi varðar og hægt er að skjótast á í bústaðinn eða golfið eftir vinnu.

Genasamsetning Jeep Avenger er hinsvegar engu ólík systkinum hans, Grand Cherokee, Compass eða Renegade – hann nefnilega leynir svakalega á sér.

Og verðið er frábært á þessum bíl en það er frá 5.850.000 og upp í 6.750.000 kr.

Jeep Avenger er í boði framdrifinn eins og er en kemur 4×4 einhvern tímann á næsta ári.

Helstu tölur:

Verð frá 5.850.000 kr. og upp í 6.750.000 kr.
Rafhlaða: 54 kWh.
Hestöfl: 156.
Tog: 260 Nm.
Drægni: 400-550 km.
CO2: 0 g/km.
L/B/H: 4.040/1.530/1.780 mm.

Greinina má lesa í heild sinni HÉR