Continue

Einföld niðurstaða – Alvöru jeppi með fullt af hestöflum

19 March 2019

Bændablaðið reynsluekur nýjum Jeep Wrangler.

Laugardaginn 2. mars síðastliðinn var frumsýning á Jeep Wrangler Rubicon hjá Ísband í Mosfellsbæ. Sýndir voru tvenns konar bílar, annars vegar dísilbíll með 200 hestafla vél og hins vegar bensínbíll með 273 hestafla vél.

Að loknum frumsýningardegi fékk ég til prufuaksturs bensínbílinn og skemmst er frá því að segja að þessi prufuakstur var bara skemmtilegur alveg frá fyrstu metrunum og alla næstu 150 km plús.

Eldsneytiseyðslan í hærri kantinum ef maður passar sig ekki

Strax og ég settist inn í bílinn byrjaði ég á að skoða hvað þeir sem höfðu prófað bílinn á undan mér höfðu verið að eyða af bensíni miðað við 100 km akstur þessa 347 km sem var búið að keyra bílinn áður en ég fékk hann afhentan, en samkvæmt aksturstölvunni var það 16,2 lítrar á hundraðið. Ég núllaði aksturstölvuna og ók af stað í borgarumferðina og eftir um 50 km þar sem ég var „þokkalega“ stilltur á gjöfinni var mín eyðsla 13,9 lítrar á hundraðið.

Næst tók ég keyrslu sem jafnaðist á við langkeyrslu á 80–90 km hraða og þá var eyðslan ekki nema 6,5 lítrar á hundraðið, en uppgefin meðaleyðsla í blönduðum akstri er 10 lítrar á hundraðið. Miðað við minn akstur og uppgefna eyðslu er töluverður munur á innanbæjarakstri og langkeyrslu enda vélin afar kraftmikil og svarar vel þegar maður ekur með þungan hægrifót. Enda erfitt að vera ekki með þungan bensínfót á svona kraftmiklum bíl.

Gerði tilraun á loftþrýstingi á malarvegi sem breytti miklu

Að keyra bílinn á malbiki er mjög gott og hávaðinn inni í bílnum á 90 km hraða er rétt yfir 70 desíbel (db). Þó var svolítið hvimleiður söngur sem kom frá grófum hjólbörðunum á malbikinu, en þegar komið var á malarveginn fann maður vel hvernig gormafjöðrunin var að vinna sitt verk vel og örugglega. Að mínu mati mætti loftþrýstingurinn í hjólbörðunum vera minni. Þegar ég fékk bílinn var 39 psi í öllum hjólbörðum svo að ég gerði tilraun og hleypti úr dekkjunum niður í 30 psi allan hringinn. Það var allt annað að keyra bílinn á malarveginum með svona lítið í dekkjunum, mun mýkri og maður fann lítið fyrir holunum.

Í dekkjunum eru skynjarar sem vara við loftleysi í dekkjum og þeir eru greinilega stilltir fyrir að fara ekki svona neðarlega og 30 psi voru greinilega of lág þannig að allar tölur voru rauðar og ekkert annað í stöðunni en að pumpa í aftur.

Mikið af góðum búnaði sem er ómissandi

Í hvert sinn sem ég setti bílinn í gang fór sætishitarinn í ökumannssætinu í botn og stýrishitarinn fór líka sjálfkrafa á sem er ekkert óþægilegt og maður þarf ekki að leita að þessum tökkum fyrr en að hendur og óæðri endi eru orðin of heit til að slökkva. Í bílnum er 220 volta tengill, en ekki ætlaður fyrir mikla rafmagnsnotkun og 150 wött er hámarkið.

Blindhornsvarar eru á bílnum eins og er að verða staðalbúnaður í flestum nýjum bílum í dag. Bakkmyndavélin er með þeim stærri og skýrari sem ég hef séð í bíl. Næstum því hægt að kalla þetta sjónvarp, svo stór er skjárinn.

Fullbúið varadekk er í bílnum, en það eina sem ég sá og fann neikvætt við bílinn var ljósabúnaðurinn. Til að fá afturljósin til að kvikna svo að maður sé löglegur í umferðinni, þá verður maður að muna að kveikja full ljós. Ekki er hægt að skilja þau eftir kveikt þegar drepið er á bílnum, þar sem að þau fara ekki af sjálfkrafa eins og í mörgum öðrum bílum.

Vél og búnaður

Bensínvélin er V6 2000 og skilar 273 hestöflum, 8 gíra sjálfskipting er í bílnum, en uppgefin dráttargeta er ekki nema 2,370 kg (frekar lítið miðað við kraft í bílnum).

Hægt er að keyra bara í afturhjóladrifinu og þannig stilltur og þegar ég ók á 90 km hraða var eyðslan hjá mér ekki nema 6,5 á hundraðið. Svo er sjálfvirkt fjórhjóladrif sem kemur sjálfvirkt inn þegar þess er þörf, þ.e. „4H part time“. Þá er læst milli fram- og afturöxuls. Síðan er það 4L sem er lágt drif með læsingu milli fram- og afturöxuls.

Hæð undir lægsta punkt er 25,2 cm, en án nokkurra breytinga er hægt að setja bílinn á 35 tommu dekk og mjög auðvelt er að breyta þessum bíl og hækka.

Í boði er að taka húsið af í nokkrum pörtum og hurðir líka á heitum sumardögum og segir sagan að amerískir drullumallarar sem fara á sérstök aksturssvæði húslausir og koma þaðan með allt drulluskítugt, þá er bara notuð háþrýstidælan á allt, sæti, mælaborð og annað sem þarf að þrífa þar sem þetta á að þola háþrýstiþvott. Persónulega myndi ég ekki treysta því.

Þessi bíll er einn vinsælasti jeppi sem fáanlegur er í Ameríku og þar af leiðandi eru ótal vefsíður og verslanir sem bjóða upp á alls konar aukabúnað í þessa bíla.

Grunnverðið er frá 10.890.000 á Jeep Wrangler Rubicon. Svo er bara spurning um hvað maður vill mikið af þægindum í breytingarpakka.

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá sölumönnum Ísband eða á vefsíðunni www.isband.is

Greinina má sjá í heild sinni HÉR Á BLS 46

Ljósmyndir: Hjörtur L. Jónsson

baendabladid_wrangler_mars19_grein_fca