Continue

Jeep Compass fær góða dóma í Morgunblaðinu

05 April 2018

Jón Agnar Ólason hjá Morgunblaðinu gaf Jeep Compass góða dóma í grein sinni í dag.

Áfram bæt­ist í úr­valið af jepp­um frá Jeep, fyr­ir­tæk­inu sem léði okk­ur Íslend­ing­um heitið yfir veg­leysu­bif­reiðir – jeppi.

Grand Cherokee hef­ur verið fram­leidd­ur í meira en fjöru­tíu ár og telst í dag orðinn góðkunn­ingi hér á landi, í fyrra var Jeep Renega­de kynnt­ur til sög­unn­ar með sínu allsér­stæða út­liti, og nú er röðin kom­in að Jeep Compass, sem aug­lýst­ur er sem „litli bróðir Grand Cherokee“.

Það er út af fyr­ir sig satt og rétt, og segja má að Compass hafi út­litið með sér, alltént með all­menn­ari hætti en Renega­de-jepp­inn sem fell­ur helst þeim í geð sem sækja sér­stak­lega í „spes“ bif­reiðar.

Svip­fríður að sjá

Það kveður við ann­an tón í til­felli Jeep Compass því hann er hinn snoppu­fríðasti að sjá. Það er reynd­ar sér­stakt að Jeep Cherokee sé ekk­ert lík­ur Jeep Grand Cherokee, á meðan Jeep Compass er eins og minni út­gáfa af Jeep Grand Cherokee; eruð þið að fylgja mér? Allt um það, Compass-jepp­inn er lík­lega sá fal­leg­asti af allri fjöl­skyld­unni og eins og fram­ar greindi mun­ar þar ekki minnst um fram­end­ann sem er virki­lega flott­ur og vel heppnaður.

Hliðarn­ar á yf­ir­bygg­ing­unni eru þær sömu að sjá og á Jeep Renega­de, ei­lítið inn­dregn­ar um hurðaflek­ana. Þarna eru greini­lega ákveðin sam­legðaráhrif í gangi, nokkuð sem á eft­ir að dúkka upp aft­ur.

Sama er að segja um aft­ur­end­ann, sem er að megn­inu til skott­hler­inn. Hann er í línu við annað í út­liti bíls­ins, sem er heild­stætt og geng­ur vel upp. Ljóst má vera að mun fleiri munu renna hýru auga til Jeep Compass held­ur en nokk­urn tíma hinna sér­stöku bræðra hans, Renega­de og Cherokee.

Plastið alls­ráðandi inni

Það er ekki al­veg jafn skemmti­legt um að lit­ast inn­an­dyra því þar er plastið alltumlykj­andi, í svo­lítið sér­stakri gervileðurá­ferð. Slíkt fyr­ir­gefst jafn­an að ein­hverju marki þegar um ódýr­ari bíla er að ræða en hér er grunn­verðið vel á sjöttu millj­ón króna og þá vill maður helst sjá svo­lít­il tilþrif í inn­an­stokks­hönn­un­inni. Inn­rétt­ing­in er aft­ur á móti hag­an­lega hugsuð, aðgengi og viðmót fínt og ökumaður er fljót­lega heima í öllu sam­an. Reynd­ar var stýris­hjólið held­ur kunn­ug­legt þegar ég ók Compass og það rifjaðist upp fyr­ir mér að það er greini­lega steypt í sama mót og stýrið í Fiat Tipo. Svo er und­ir hæl­inn lagt hvort maður ger­ir veður út af því. Eins og fram­ar greindi er fólkið hjá Fiat Chrysler að nýta sér ákveðin sam­legðaráhrif og ekk­ert að því í sjálfu sér. En það væri óneit­an­lega gam­an að sjá svo­lítið veg­legra efn­is­val í bíl sem að öðru leyti kem­ur manni vel fyr­ir sjón­ir. Plássið er þá fínt fyr­ir höfuð herðar og hné, bæði í fram­sæt­um og aft­ur í.

Góður á veg­um sem veg­leys­um

Um þess­ar mund­ir er stærðarflokk­ur Jeep Compass heit­asta heitt í bíla­brans­an­um og nær­fellt all­ir bíla­fram­leiðend­ur berj­ast þar um hylli kaup­enda. „Borg­ar­jeppi“ er dag­skip­un­in og það taka sum­ir full­bók­staf­lega. En ekki Compass, því hann er hinn reffi­leg­asti á möl og nýt­ur sín þar fylli­lega jafn­vel og á mal­bik­inu. Þar nutu akst­ur­seig­in­leik­ar hans sín virki­lega vel og þó ekið væri nokkuð greitt um þvotta­bretti í nærsveit­um höfuðborg­ar­inn­ar þá plumaði hann sig bara þræl­vel. Vinnsl­an er ágæt í dísil­vél­inni en hún glamr­ar helst til mikið í hæga­gangi.

Jeep Compass á sjálfsagt eft­ir að fara langt á út­lit­inu enda hef­ur hann það með sér. Þeir sem eru vand­fýsn­ir á inn­rétt­ing­ar gætu þó sett spurn­ing­ar­merki þar við og það er hætt við að með því að spara þar aur­inn séu Jeep að kasta krón­unni. Þetta er ekki bíll í lægsta verðflokki, þó að hann sé á fínu verði fyr­ir þann jeppa sem hann er, og skyn­sam­legt væri að djassa innviðina lítið eitt upp fyr­ir næstu upp­færslu. Kaup­end­ur eiga heimt­ingu á slíku þegar bíll er jafn huggu­leg­ur að sjá hið ytra.

Fréttina má skoða í heild sinni HÉR

Ljósmyndir: Hari/MBL