Continue

Bilablogg.is – Reynsluakstur á nýjum Jeep Grand Cherokee

12 October 2023

Reynsluakstur á nýjum Jeep Grand Cherokee hjá bílavefmiðlinum bilablogg.is – Stór, flottur og alvöru jeppi að þeirra mati.


Tengill á grein: Bílablogg.is – Höfundur: Jóhannes Reykdal – Ljósmyndir: Jóhannes Reykdal

Við erum í sérstæðri stöðu í dag, því bíllinn sem við erum með í reynsluakstri í dag verður ekki fáanlegur hér á landi fyrr en á næsta ári. Þetta er nýjasta gerðin af Jeep Grand Cherokee, og Ísband í Mosfellsbænum brá á það ráð að fá „fyrir fram“ tvo svona bíla svo væntanlegir íslenskir kaupendur geti skoðað bílinn vel og farið í prufutúr.

Við ættum kannski að kalla þetta frekar „kynningarakstur“ því bíllin var á „rauðum númerum“ sem leyfa takmarkaðri not og því var aksturinn í styttra lagi, en nægilegur samt til að kynnast bílnum vel.

Fetar í fótspor fyrri „lúxusjeppa“

Hver fann upp lúxusjeppann? Við þessu er ekkert einfalt svar, og fer eftir því hvern þú spyrð, en Jeep trúir því vissulega að þeir hafi verið fyrstir á markað. Ekki með Jeep Grand Cherokee sem við erum að skoða hér, heldur með Wagoneer snemma á sjöunda áratugnum.

Grand Cherokee er þó eðlilegur arftaki Wagoneer, sem var til sölu í Bandaríkjunum meira en fimm árum áður en Range Rover kom á markað á sínum tíma. Þetta er næstum fimm metra langur jeppi, sem er þægilegur ferðabíll en gæti einnig komið okkur eftir torfæruslóða með léttum leik sé þörf á því.

Margir segja að þetta sé í rauninni svar Bandaríkjanna við Range Rover Sport.

Glæsilegur og vel búinn

Bíllinn sem við erum að prófa er Grand Cherokee í glæsilegum Summit Reserve búningi, en ódýrari útgáfur verða boðnar þegar hann kemur á markað hér á landi, og þá verða fjórar gerðir í boði, á áætluðu verði í dag frá 13,5 til 16,5 milljónir.

Gerðirnar fjórar eru: Jeep Grand Cherokee Limited 4xe PHEV, Jeep Grand Cherokee Trailhawk 4xe PHEV, Jeep Grand Cherokee Overland 4xe PHEV og loks Jeep Grand Cherokee Summit Reserve 4xe PHEV

Það er best búna gerðin sem við erum með til prófunar hér, og það fer ekki á milli mála að hér hefur verið vandað til verka. Sá sem þetta skrifar hefur átt nokkra Cherokee-bíla um ævina og haft aðgang að öðrum og þessi tekur þeim öllum fram varðandi frágang og glæsileika.

Bílinn er svo hlaðinn staðalbúnaði að listinn er langur, og við ætlum ekki að telja þetta allt upp hér, en bendum áhugasömum á að skoða búnaðinn á heimasíðu Ísband.

Lúxusbíll en samt alvöru jeppi

En er svona „lúsusjeppi“ nokkur jeppi í raun? Það verðum við að staðfesta að sé til staðar og það finnst vel í akstri á grófari vegi. Hann er með „aftengjanlegri“ jafnvægisstöng að framan líkt og Wrangler-jeppinn, sjálfvirkri læsingu í afturdrifi og stillanlegri veghæð svo það er fullt af alvöru „jeppaeiginleikum“ til staðar.

Bílablogg hafði náð því að prófa einmitt einn svona bíl fyrir nokkru í reynsluakstursferð til Spánar, eins og sjá má í meðfylgjandi vídeói, og þar sýndi hann vel hvers hann er megnugur við krefjandi aðstæður.

Góð hljóðeinangrun

Eitt af því sem er góð framför í bíl á borð við Grand Cherokee er hvað hljóðeinangrun er orðin góð. Almennt er veghljóð í akstri á Íslandi mikið vegna lélegs malbiksyfirborðs, en þessi bíll stendur sig vel hvað þetta varðar, og þótt ekið sé við hliðina á fullhlöðnum flutningabíl upp brekku þá heyrist það aðeins sem „suð“ frekar en vélarhávaði.

Ágætt aðgengi

Það hefur stundum loðað við jeppa og torfærubíla að aðgengi er stundum of þröngt, sérstaklega að aftursætum, en hér er ekkert svoleiðis vandamál.

Góður í akstri

Það finnst vel í akstri að hér hafa hönnuðir verið að hugsa fyrst og fremst um það að búa til góðan ferðabíl.

Þegar ekið er á lengri leiðum er essi bíll í essinu sínu, og því kom það verulega á óvart hversu vel hann stóð sig á grófum og krókóttum malarslóðum.

Fjöðrunin var stillt í næst neðstu stillingu, og það hentaði greinilega ágætlega. Þegar prófað var að hækka bíllinn, þá er fjöðrunin verulega styttri og sneggri, enda eru þessar hærri stillingar einkum ætlaðar fyrir styttri vegalengdir við erfiðari aðstæður.

Vonbrigði varðandi drægni á rafmagni

Þessi gerð Grand Cherokee er „plug in hybrid“ eða með drifvalkosti frá bensínvél og rafhlöðu.

Bensínvélin er 2ja lítra, 380 hestöfl, sem skilar bílnum vel áfram, en rafhlaðan er ekki stór, eða aðeins 17,3 kW og er sögð geta komið bílnum 53 kílómetra á rafmagninu eingöngu. Það er okkar álit að raunhæfara sé eð tala um 40-45 km við íslenskar veðuraðstæður. Að okkar mati væri „óskastaðan“ í drægni á svona bíl að lágmarki 80 km.

Sjálfskiptingin er 8 gíra og svarar vel við flestar aðstæður.

Farangursrýmið mætti örugglega vera stærra

Þegar við erum að skoða jeppa af þessari stærð er eitt af því fyrsta sem okkur myndi detta í hug er að þarna ætti að vera stórt og gott farmrými, en að okkar mati mætti það vera verulegra stærra í svona vel búnum bíl.

Prófun í torfærum á Spáni vorið 2023

Okkur hjá Bílabloggi var boðið í reynsluakstur á Grand Cherokee Trailhawk snemma í vor. Það var Ísband, umboðsaðili Jeep á Íslandi sem blés til kynningar á bílnum niðri á Costa del Sol á Spáni.

Í myndbandinu neðst í þessari grein má sjá Grandinn í torfærubraut sem búin var til fyrir tilefnið. Þar er ekið með stóru áfallshorni, miklum halla og um leið er bílinn látinn reyna við mjög óslétt yfirborð.

Það kom í ljós að þrátt fyrir lúxusyfirbragð bílsins hefur ekkert verið slegið af torfærugetunni. Loftpúðafjöðrun og fullkomið Quadra-drive drifið gerir að verkum að bíllinn er frábær í torfærum. Ekki síður er Plug-in hybrid kerfið að hjálpa til við erfiðar aðstæður en þeir sem til þekkja segja að nákvæmni togkrafts sé mun meiri þegar bíllinn getur skipt á milli rafmagns og brunavélar í torfærum.

Niðurstaða

Eftir þennan stutta kynningarakstur stendur eftir að þessi toppútgáfa af Jeep Grand Cherokee er verulega spennandi bíll, vel búinn með marga góða kosti.

Við munum væntanlega fjalla um betur um bílinn þegar hann kemur endanlega á markað hér á landi.

Helstu tölur:

Lengd: 4,92 m
Hæð: 1,85 m
Breidd: 2,15 m
Þyngd: 2.434 kg.
Farangursrými: 533 lítrar
Dráttargeta: 2.332 kg.
Bensíngeymir: 72 Lítrar
Hæð undir lægsta punkt: 20 cm en 27,5 cm í torfærustillingu

Greinina má lesa í heild sinni HÉR