Continue

MBL.is reynsluakstur – Jeep með neglu í fyrstu tilraun

30 May 2023

Kristján H. Johannessen hjá Morgunblaðinu reynsluók á dögunum Jeep Avenger.

Greinin er á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu þriðjudaginn 16. maí 2023

Það var í spænsku hafnar-borginni Málaga í 30 gráðum og glampandi sól sem ég fyrst leit Jeep Avenger augum, fyrsta hreina rafbíl þessa bandaríska bílarisa. Og þvílíkt tæki!

Sá bíll sem reynsluekið var er af Summit-útfærslu, toppurinn hjá Avenger sem bókstaflega er hlaðinn búnaði og þægindum. En hafandi sagt það þá er grunnútfærslan, sem nefnist Longitude, langt frá því að vera berstrípuð. Í raun er staðalbúnaður Avenger ótrúlega mikill og það sem meira er, hann er úthugsaður. Maður fær það fljótt á tilfinninguna að þeir sem komu að hönnun þessa bíls hafi valið staðalbúnað eftir notagildinu. Þannig fer lítið fyrir óþarflega dýrum búnaði sem, í fullri hreinskilni sagt, yrði sjaldan notaður og gerir því fátt annað en að toga upp grunnverðið. Sem dæmi um staðalbúnað má nefna hita í sætum, bakk- og regnskynjara, hraðastilli og hæfilega stóran margmiðlunarskjá með góðri upplausn og enn betra viðmóti. Sex mismunandi drifstillingar og brekkuaðstoð er einnig staðalbúnaður, enda tilheyrir bíllinn Jeep-fjölskyldunni. Nánar um það seinna. Velji menn hins vegar íburðarmeiri útfærslur þá bætist við búnaður á borð við bakkmyndavél, blindhornsvörn, stafrænt mælaborð, stærri felgur og svona mætti lengi telja.

Greinilegur Cherokee-svipur

Það fyrsta sem náði mér var ytra útlit bílsins. Ég veit, það borgar sig ekki að dæma bók af kápunni. En þessi kápa er bara svo flott! Útlitið vakti líka forvitni mína. Ég meina, þetta er ekkert sérstaklega stór bíll en samt lítur hann út fyrir að vera bæði stór og sterkur. Að auki sver hann sig greinilega í ættina. Svipsterkur framendinn, svarta glampavörnin á húddinu og þetta jeppalega útlit hreinlega öskrar: Jeep!

Sá bíll sem mér var úthlutað er gulur á litinn. Veit samt ekki alveg hvort ég myndi velja þennan lit hér heima, en þarna, skammt frá Gíbraltarsundi, þá svínvirkar hann. Og þessir svörtu listar sem ramma bílinn inn fóru gula litnum, svarta þakinu, dökku rúðunum og svörtu 18” felgunum afar vel. Talandi um þessa lista, hönnuðir bílsins segja þá hylja helstu álagssvæði og eiga þeir því að geta sparað bíleigendum lakkviðgerð(ir) komi eitthvað óvænt upp á. Sniðugt og um leið flott því mér finnst Avengerinn einhvern veginn meira „röff“ með þessum listum.

Annað sem sérstaklega má hrósa teiknara Avenger fyrir og snýr að ytra útliti bílsins eru grillið og framljósin. Ef við byrjum á LED-ljós-unum, þá gera þau bílinn svolítið grimmilegan á svip. Mér finnst sérstaklega töff hvernig þau renna inn í grillið. En grillið fær mig hins vegar til að leiða hugann að stóra bróður, Grand Cherokee. Glæný hönnun af þeim bíl er væntanleg síðar á Evrópumarkað. Ég fékk þó í Málagaferðinni einnig að prófa hann á bæði þjóðvegi og vegleysu. Og það eina sem ég get sagt um reynslu mína af þeim bíl nú er – vá! Jæja, víkjum aftur að Avengernum.

Þéttur og laus við hnökra

Þegar inn er komið og dyrnar lokast heyrist við það alvöruhljóð. Þið vitið hvað ég á við. Sumir bílar eru skelfilega dósalegir, en þessi er það alls ekki. Avengerinn er í raun ótrúlega þéttur og undarlega hljóðlátur á ferð. Hann er nær algerlega laus við allt veghljóð.

Undir stýri, sem veitir gott grip og var þriggja arma, fannst mér ég sitja í mun stærri bíl, eiginlega alvörujeppa. Útsýnið út um framrúðuna er mjög gott og ökumenn verða að líkindum allir fljótir að átta sig á stærð bílsins. Það er því ekkert víst að reyna muni á þessa svörtu lista sem ég minntist á áðan.

Mælaborðið í reynslubílnum er stafrænt og býður upp á að hægt sé að nálgast mismunandi upplýsingar, m.a. um akstur, orkunotkun og orkuhleðslu. Upplausnin góð og engir hnökrar komu upp, hvorki við notkun stafræna mælaborðsins né margmiðlunarskjásins sem er rúm-ar 12” að stærð og staðsettur í miðju innréttingar.

Fyrir neðan margmiðlunarskjáinn má svo finna nokkra flýtitakka sem stjórna m.a. loftkælingu, miðstöð og hita á fram- og afturrúðu. Þetta er algerlega nauðsynlegt í heimi nútímans þar sem öllu virðist stjórnað í gegnum snertiskjá. Ég meina, af hverju þurfa sumir bílar að vera þannig að ökumaður þarf á ferð að stara í tölvuskjá og fletta í sífellu fram og aftur til að geta gert einföldustu hluti, s.s. að hækka í miðstöðinni, kveikja á sætishita eða skipta um rás á útvarpinu? Í raun óskiljanlegt og algerlega óþolandi.

Neðan við takkana mikilvægu eru svo fjórir takkar til viðbótar. Og þeir mynda „gírstöngina“. Ég veit, þetta er óvenjulegt og nánast undarlegt. En gefið þessu séns.
Ég gerði það og var frekar fljótur að ná takkaleikfiminni. Finnst þó samt alltaf skemmtilegra að hafa alvörugírstöng, sérstaklega í bíl sem tilheyrir alvörujeppafjölskyldu, og þá helst hægra megin við stýrið. Þið vitið, þessa gömlu góðu sem maður rennir niður til að setja í gír. Þannig er það þó ekki hér, þú ýtir bara á „D-takkann“ og ekur af stað.

Innra rýmið í Avenger er í stuttu máli sagt fallegt. Allt frá leðurklæddu stýrinu yfir í sætin sem eru bæði þægileg en veita um leið stuðning. Í sætisbakið er svo búið að þrykkja „Jeep“, sniðugt og gefur sætunum skemmtilegan svip.

Kom, sá og sigraði

Avenger er sem fyrr segir frumraun Jeep í framleiðslu á hreinum rafbíl og er hann sérstaklega hugsaður fyrir Evrópumarkað. Verður raunar ekki einu sinni í boði vestanhafs. Það er þeirra missir. Þessi bíll er svo „evrópskur“ að hann er meira að segja framleiddur á meginlandinu, nánar tiltekið í Póllandi. Tengingar við Evrópu eru þó fleiri því strax í janúar síðastliðnum hlaut hann hinn eftirsótta titil „Bíll ársins í Evrópu 2023“. Stöldrum hér aðeins við. Þessi verðlaun eru ekkert grín. Þau eru veitt árlega og í dómnefnd sitja 57 bílablaðamenn frá 22 ríkjum Evrópu. Þessum fyrsta rafbíl Jeep tókst þannig að skáka rafbílum á borð við ID Buzz frá Volkswagen og Nissan Ariya sem eru af mörgum taldir frábærir. Er það ekki ótrúlega góður árangur fyrir fyrstu tilraun?

Fyrir utan sigurförina í Evrópu, þá er ljóst að Pólverjar kunna að setja saman bíla því Avengerinn er laus við allt skrölt og los. Ekki einu sinni ójöfnum, vegleysum og skrykkjóttum slóðum Málaga tókst að kalla fram aukahljóð. Og samt var það reynt viljandi.

Fyrir þá sem eru að hugsa út í geymsluhólf þá hefur þessi bíll nóg af þeim. Í hurðum eru þessir hefðbundnu vasar sem fólk á að venjast, en í miðjustokknum gerast galdrarnir. Þar, fyrir neðan takkana sem mynda gírskiptinguna, er stórt og mikið hólf sem hægt er að opna til fulls eða að hluta. Fer allt eftir því hvernig þú vilt hafa það. Hólfið er rúmgott og í prufubílnum var þar að finna þráðlausa hleðslu fyrir snjallsíma. Einfalt í notkun og mjög þægilegt. Raunar finnst mér að allir nýir bílar ættu að bjóða upp á þráðlausa símahleðslu. Þessar snúrur eru bæði óþolandi og púkó.

Eins er í innréttingunni, rétt ofan við flýtitakkana góðu sem ég minntist á áðan, langt og mikið geymslu-hólf sem nær allt frá stýri ökumanns og að hurð farþegamegin. Bæði býður þetta hólf, eða kannski réttara sagt þessi hilla, upp á geymslumöguleika en einnig brýtur hún upp innréttinguna og setur um leið svip á bílinn að innanverðu.

Almennt myndi ég segja að plássið sé gott inni í Avenger. Fjórir fullorðnir geta auðveldlega látið fara vel um sig í bílnum í lengri ferðum. Vilji menn endilega hafa þrjá aftur í þá er sennilega betra að miðjumaðurinn sé nettur. Að því sögðu má ekki gleyma því að Avenger er, líkt og ég sagði í upphafi, ekkert sérstaklega stór bíll. Hann hins vegar nýtir möguleika sína vel og því geta þessir fjórir fullorðnu einnig ferðast með farangur með sér því skottið er rúmgott, sérstaklega miðað við stærð bílsins, og fremur kassalaga. Ekki er heldur nein leiðindabrún að þvælast fyrir fólki þegar vörur eru settar í bílinn eða þær teknar út. Hönnunin er sniðug að því leyti.

Annað atriði sem ég tel sérstaklega vert að nefna og skiptir talsverðu máli, einkum fyrir yngri kaupendur með börn, en það eru ISOFIX-festingar. Avenger býður upp á þrjá tengistaði fyrir bílstóla, þ.e. tvo í aftursætum og þann þriðja í farþegasæti frammi í. Það kann að hljóma undarlega en þetta er frekar sjaldgæfur möguleiki sem verður að teljast bagalegt, því bílar eru jú hannaðir til að flytja fólk. Verandi faðir þriggja barna sem öll nota bílstóla þá fær Jeep stórt hrós frá mér fyrir þessa hönnun. Aðrir bílaframleiðendur mættu margir gera ráð fyrir fólki á öllum aldri.

Alvöru-Jeep en án 4×4

Málaga er fallegur staður og þetta var fyrsta heimsókn mín þangað. Þegar sólin vék fyrir næturhimninum sá maður að tunglið og stjörnurnar litu öðruvísi út en vanalega. Þá veit maður að það er ansi langt heim. Sama tilfinning var þó ekki uppi þegar ekið var um götur og sveitir Málaga. Þá var setið í bíl sem maður þekkti. Jú, auðvitað er Avenger alveg ný hönnun, en hann er samt Jeep. Og maður fann það. Jeep á sér merka sögu sem nær allt aftur til seinna stríðs þegar rík þörf var á ökutæki sem gat tekist á við hvaða aðstæður sem er. Sennilega hugsa allir um öflugt fjórhjóladrif og sigraðar vegleysur þegar orðið Jeep ber á góma. Það kann því að stuða einhverja að Avenger er einungis, enn sem komið er, fáanlegur með framhjóladrifi. Getur hann þá nokkuð verið Jeep, kann einhver að spyrja. Ég held að svarið við þessu sé já og ég skal útskýra af hverju.

Fyrir það fyrsta þá fylgir bílnum sem staðalbúnaður drifstilling með sex valmöguleikum, m.a. fyrir snjó og leðju. Brekkuaðstoð og spólvarnarkerfi koma einnig sem staðalbúnaður og auðvelda kerfin ökumanni að keyra við krefjandi aðstæður af öryggi. Þessu til viðbótar hafa hjólin gott pláss til að teygja sig og leggjast saman í takt við undirlag, nokkuð sem hefur einkennt Jeep frá upphafi. Góð hæð er undir lægsta punkt og hönnuðir reyndu hvað þeir gátu til að gera undirvagn bílsins sem sléttastan. Þannig vilja þeir minnka líkur á að ökumaður reki undirvagninn upp undir í ójöfnum. En þó það gerist, þá ver sérstök hlífðarplata rafhlöðuna. Þessi kerfi, ásamt góðum dekkjum, skila flestum eigendum Avenger þangað sem þeir vilja komast. En ekki trúa mér. Ég hvet þig, lesandi góður, auðvitað til að hafa samband við ÍSBAND og athuga með prufuakstur. Þannig kynnistu bílnum milliliðalaust.

Ég hafði hugsað mér í upphafi að skrifa langa rullu um aksturseiginleika Avengersins á skrykkjóttum vegum Málaga og ómalbikuðum sveitavegum. En til hvers? Bíllinn var frábær á þjóðvegi og eiginlega enn skemmtilegri á malarvegi. Og það á mikilli ferð líka. Þessi bíll er draumur að keyra og að öllum líkindum mjög góður kostur að eiga. Langflestir munu ekki þurfa fjórhjóladrif á sínum ferðum. Þessi litli Jeep getur örugglega flutt þig þangað sem þú ert vanur að fara og ef þú vilt skreppa út fyrir malbikið líka, þá tel ég hann vera betri en margir kynnu að halda. Avenger frá Jeep er í afar stuttu máli frábær kostur fyrir fólk sem vill rafmagnaða akstursánægju með möguleika á akstri utan vegar.

Ljósmyndir: Morgunblaðið/Kristján H. Johannessen